Fram kom í Mogganum í gær að útflutningstekjur á hugbúnaði hefðu aukist um rúman milljarð milli ára. Það eru auðvitað frábærar fréttir, en ekki mjög óvæntar þar sem ut.is var nýbúið að vekja athygli á stöðu hugbúnaðariðnaðarins á Íslandi. Þar kemur m.a. fram að útflutningstekjur hugbúnaðar á Íslandi hafa aukist á hverju einasta ári frá 1990. Fjöldi starfa í greininni hefur meira en tvöfaldast á 12 árum og er í dag um 5200 störf. Kreppan í bransanum virðist aðallega hafa gengið út á að losa sig við fólkið sem enginn vissi hvað var að gera ("event manager" í hugbúnaðarhúsi - er það nú kjarnastarfsemi??) og lækka aðeins launin hjá þessum sem eru hvað blautastir á bak við eyrun.
Vandamálið sem þessi meinti dauði bransans skapar er hins vegar sá að það er nánast vonlaust að fá fjármagn inn í hugbúnaðarfyrirtæki - hvort sem um er að ræða fjárfestingar eða lánsfé. Við erum aftur kominn í gírinn "það er ekkert veð nema fasteign" - fjárfestar hafa ekki áhuga á því, að því er virðist, að fjárfesta í hátæknistörfum, hömlur á erlenda fjárfesta er ekkert að hjálpa og ríkið er önnum kafið við að fjölga lágtæknistörfum; störfum sem hæfa ekki menntunarstigi þjóðarinnar, en okkur tekst að fá til okkar af því að við bjóðum betur en þriðji heimurinn!
Á sama tíma og okkur tekst að fá til okkar álver og skapa þar með atvinnu fyrir verksmiðjufólk, eru lönd eins og Indland og Kína að uppskera eftir mikið átak í menntunarmálum hjá sér. Þeim hefur tekist að vinna til sín störf í geirum eins og hugbúnaðargerð og verkfræði, meða annars með outsourcing samningum við bandarísk stórfyrirtæki. Á skömmum tíma eru bandaríkjamenn að horfa upp á millistéttarstörfin sín hverfa til Indlans og Kína, þar sem tæknimenntað fólk vinnur þessi störf á sömu launum og það fengi greitt í Bandaríkjunum. Þetta er auðvitað frábært fyrir þessi þjóðfélög og á örugglega eftir að skila miklu, ekki bara fyrir þá sem vinna þessi störf. Þetta sýnir hvað fjárfesting í menntun getur skilað miklu og hefur vonandi þau áhrif hérna heima að það séu færri sem hafa áhuga á subbulegum verksmiðjum sem við getum þá skellt upp á einhverjum útkjálkum.
Nú í vor úthlutaði Rannís 17 styrkjum til rannsókna á hagnýtingu upplýsingatækni. Þarna eru margar góðar hugmyndir sem gaman verður að fylgjast með. Ef grannt er skoðað sést þó að ekki er mikið um að fyrirtæki séu að fá styrki þarna, enda ekki eftir miklu að slægjast. Hámarksstyrkur á ári er 7 milljónir króna. Það sem er þó sýnu verra er það að eftir að rannsóknarverkefninu lýkur, vonandi með jákvæðri niðurstöðu, þá eru engar augljósar leiðir til að halda áfram með verkefnið. NSA á ekki pening, Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn er hættur og enginn veit ennþá hvað hinn auralausi tækniþróunarsjóður á að gera.
Væri ekki frábært ef "nýsköpunar" peningarnir sem fóru útáland færu í þennan auralausa sjóð og nota hann síðan sem frumfjárfestingarsjóð?
Recent Comments